Það er víst ekki nóg að tína jurtir og lita band, það þarf að koma því á framfæri og selja til að hægt sé að halda áfram að lita meira band. Undanfarin ár hef ég verið að vinna að því að kynna jurtalitaða bandið mitt með því að fara á markaði og sýna það og segja frá hvað ég er að gera, kynna heimasíðuna mína og reyna að koma mér á framfæri eins og hægt er. Það er einfaldlega þannig að enginn kaupir bandið mitt ef enginn veit af því eða hvar er hægt að nálgast það.
Þetta sumar hefur verið mjög skemmtilegt og mér hefur gengið vel að kynna mig og bandið mitt og heimasíðuna mína. Ég fór á Prjónagleðina á Blönduósi um mánaðamótin maí-júní og það var alveg dásamlega gaman. Það voru svo margir sem ég hitti og spjallaði við og ég tala nú ekki um allt fallega garnið sem var þar til sölu. Þvílíkt augnakonfekt.
Í sumar hafa verið markaðir hér á sunnanverðum Vestfjörðum, Bíldudals grænar baunir, bæjarhátíðin á Bíldudal og svo Tálknafjör, bæjarhátíðin okkar hér í Tálknafirði. Á báðum hátíðunum var boðið upp á markaðsaðstöðu þar sem ég mætti með jurtalitaða bandið og þvílíkar móttökur! Það var alveg ótrúlega gaman að hitta allt þetta fólk og spjalla og segja frá bandinu mínu og lituninni og svo seldi ég alveg helling.
Í byrjun september var svo atvinnuvegasýning á Ísafirði, Gullkistan, þar sem ég var með bás til að sýna það sem ég væri að gera. Á sýningunni voru um áttatíu fyrirtæki og framleiðendur á Vestfjörðum og alveg ótrúlegur fjöldi fólks sem kom að skoða. Ég fékk líka alveg stórkostlegar móttökur hjá gestum sýningarinnar og salan var alveg frábær. Það er svo gaman að fá að heyra hvernig fólki líst á það sem ég er að gera og fá tækifæri til að segja frá aðferðum og jurtum og ekki síst hvað er hægt að gera úr bandinu, bæði prjón og hekl.
Í vetur stefni ég á að vera á mörkuðum hér á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru haldnir í haust fyrir jólin og svo eru vonandi fleiri tækifæri til að hitta áhugafólk um garn og prjónaskap svo sem á Garnivali sem haldið hefur verið í Haukahúsinu í Hafnarfirði og svo auðvitað Prjónagleðin á Blönduósi næsta vor. Ég hlakka mikið til að hitta allt þetta áhugasama prjónafólk sem kemur jafnvel langar leiðir til að njóta þess að skoða garn og kaupa garn og hitta aðra prjónara. Svo er auðvitað heimasíðan mín og vefverslunin þar alltaf opin. Hlakka til að sjá ykkur sem flest.

